Alls slösuðust 26 um borð í Boeing 767 þotu Continental flugfélagsins í dag er þotan lenti í gríðarlegri ókyrrð í lofti. Þurfti að lenda vélinni í Miami vegna þessa, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum.
Samkvæmt frétt BBC var þotan að koma frá Rio de Janeiro í Brasilíu og var á leið til Houston í Bandaríkjunum þegar hún lenti í óveðri norður af Dóminíkanska lýðveldinu um klukkan 8:30 að íslenskum tíma. Hefur BBC eftir farþegum að þegar vélin hafi skyndilega lækkað flugið hafi einhverjir sem voru um borð tekist á loft og rekist í loft vélarinnar. Fjórir voru með alvarlega áverka en 22 með minniháttar sár og mar.