Annað dauðsfall af völdum plágu í Kína

Tveir karlmenn á fertugsaldri hafa nú látið lífið af völdum svonefndrar lungnaplágu í Qinghhaihéraði í  norðvesturhluta Kína. Hefur 10 þúsund manna bær á svæðinu verið einangraður til að hindra útbreiðslu sjúkdómsins, sem er af völdum sömu bakteríu og svarti dauði.

Svæðið er strjálbýlt og þar búa aðallega Tíbentar. Sjúkdómurinn, sem ræðst á lungun, getur borist milli manna eða frá dýrum í fólk.

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur eftir talsmanni Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, að sjúkdómsfaraldrar á borð við þennan séu ávallt áhyggjuefni en kínversk stjórnvöld hafi brugðist hratt  við og náð strax valdi á ástandinu.

Að sögn BBC hafa kínversk stjórnvöld verið óvenju opinská og veitt greiðlega upplýsiningar um faraldurinn ólíkt því sem menn eiga að venjast.  

Vitað er að um tugur manna í bænum Ziketan, sem hefur verið einangraður, hafa fengið sjúkdóminn. Verið er að leita uppi þá sem mennirnir tveir sem létust kunna að hafa haft samskipti við.

Plágubakterían berst með flóm eða sýktum dýrum. Samskonar baktería veldur svonefndum svarta dauða, sem varð 25 milljónum manna að bana í Evrópu á miðöldum, og lungnaplágu, sem getur verið banvæn en hægt er að lækna hana ef hún greinist í tíma. Fyrstu sjúkdómseinkenni eru hiti, höfuðverkur og andþyngsli. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert