Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, tryggði í óvæntri heimsókn sinni til N-Kóreu að tvær bandarískar fréttakonur yrðu látnar lausar eftir að hafa átt fund með leiðtoga landsins, Kim Jong-II í höfuðborginni Pyongyang.
Í N-Kóreu var greint frá því að Clinton hefði flutt Kim sérstök skilaboð frá Barrack Obama, Bandaríkjaforseta, í sögulegri heimsókn sinni sem kom í kjölfar mikillar spennu vegna kjarnorkutilrauna og eldflaugatilraunar sem talsmenn Hvíta hússins neita.
Kim samþykkti að náða sjónvarpsfréttakonurnar Laura Ling og Euna Lee eftir að Clinton „baðst einlægrar afsökunar“ á „fjandsamlegu athæfi“ þeirra, að sögn opinberrar fréttastofu N-Kóreu.
Eftir að Kim hafði lýst yfir náðun þeirra hafi Clinton flutt munnleg skilaboð frá Barack Obama, Bandaríkjaforseta, með einlægum þökkum fyrir náðunina og setti fram sjónarmið um að bæta samskiptin milli þjóðanna. Talsmenn Hvíta hússins bera til baka að skilaboðin hafi verið með þessum hætti.
Fréttastofan n-kóreska gat þess ekki hvenær fréttakonurnar yrðu látnar lausar. Bandaríska ABC-sjónvarpsstöðin segir hins vegar að Bill Clinton hafi hitt Ling (32 ára) og Lee (36 ára) á afar tilfinningaþrungnum fundi og segir að þær verði komnar til Bandaríkjanna á morgun, miðvikudag, sama dag og heimsókn Clintons lýkur.