Ríkisstjórn Hægri-miðjuflokksins í Búlgaríu stendur frammi gríðarlegum niðurskurði ríkisútgjalda á síðari hluta þessa árs.
Simeon Djankov, fjármálaráðherra Búlgaríu segir nauðsynlegt að skera niður útgjöld um sem nemur rúmlega 100 milljörðum íslenskra króna. að auki verði að finna nýjar leiðir til tekjuöflunar. Djankov segir kreppuna enn eiga eftir að dýpka í Austur Evrópu á næstu mánuðum og nauðsynlegt sé að koma böndum á ríkisfjármálin.
Að óbreyttu stefnir í rúmlega 200 milljarða króna halla á fjárlögum Búlgaríu á þessu ári.
Öllum ráðuneytum og ríkisstofnunum hefur verið gert að skera niður útgjöld um a.m.k. 15% það sem eftir lifir árs. Undanþegin niðurskurði eru þó ráðuneyti menntamála, dómsmála og innanríkismála og að auki ríkisfjölmiðlar. Áskilið er að niðurskurðartillögur bitni ekki á eftirlaunagreiðslum, launum eða lífeyrisgreiðslum.
„Í framhaldi af niðurskurði útgjalda munum við leita leiða til að auka tekjur ríkisins. Aukin skattheimta og hækkun tolla er ein leið,“ segir Djankov.
Hann segir að skatteftirlit verði hert en áætlað er að allt að undanskot undan skatti nemi sem jafnvirði 100 milljarða króna á ári.
„Vonandi munu aðgerðir okkar leiða til jafnvægis í ríkisfjármálum,“segir Djankov.
Hann er þó allt annað en bjartsýnn á efnahagshorfur næstu mánuðina og segir að ástandið eigi enn eftir að versna í Austur-Evrópu. Vart fari að rofa til fyrr en liðið verði á næsta ár.