Heitir því að styrkja herlið NATO í Afganistan

Anders Fogh Rasmussen, nýskipaður framkvæmdastjóri NATO, heitir því að efla …
Anders Fogh Rasmussen, nýskipaður framkvæmdastjóri NATO, heitir því að efla herlið NATO í Afganistan. Reuters

Nýr framkvæmdastjóri NATO, Anders Fogh Rasmussen, heitir því að styrkja herlið NATO í Afganistan og efla það í baráttunni við Talibana. Mikilvægt væri að hjálpa Afgönum á þann hátt að þeir gætu staðið á eigin fótum.

Rasmussen sagði þetta við komuna í Kabúl í dag. Þetta er fyrsta heimsókn framkvæmdastjórans til Afganistan en hann tók við embætti sem leiðtogi vestræna hernaðarbandalagsins fyrir tveimur dögum.

Fréttamaður Al Jazeera sagði að Rasmussen hefði haldið blaðamannafund með Hamid Karzai, forseta Afganistan.  Rasmussen sagði að Afganistan væri forgangsverkefni hjá NATO og að það að heimsókn hans svo stuttu eftir að hann tekur við embætti sýndi fram á það.

Rasmussen sagði að hann væri tilbúinn til að taka hagnýt skref til þess að binda endi á ofbeldið í landinu.

,,Ég tel að það sé frumskilyrði að afganska stjórnin sé í styrkum sessi þegar hún tekur þátt í  viðræðum og samningaviðræðum, það kemur ekkert í staðinn fyrir áframhaldandi og efldan hernaðarlegan styrk," sagði Rasmussen.

Þá sagði Rasmussen að hann vildi að afganskar sveitir tækju við öryggismálum í landinu innan fimm ára. Hann sagði líka að NATO myndi styðja Afgana þegar þeir tækju við stjórninni frá Bandaríkjamönnum, svo lengi sem þörf væri á. Það þýddi þó að Afgönum yrði hjálpað að standa á eigin fótum.

NATO tok við hluta af aðgerðum í Afganistan fyrir sex árum en hækkandi tala látinna afganskra borgara vegna árása vestrænna sveita hefur valdið mikilli reiði í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert