Alríkisdómstóll hefur úrskurðað að stjórnvöldum í Kaliforníu beri að fækka föngum í fangelsum fylkisins um 40 þúsund á næstu tveimur árum. Skal það gert til að tryggja betur meðferð heilsuveilla fanga. Fylkisstjórn Arnolds Schwarzenegger hyggst áfrýja úrskurðinum til Hæstaréttar Bandaríkjanna.
Dómarar við dómstólinn sögðu í rökstuðningi sínum að þrátt fyrir mikil fjárútlát til fangelsismála hafi ekki verið hægt að koma í veg fyrir tíð dauðsföll fanga af völdum lélegrar læknisþjónustu og sjálfsvíga.
Farið er fram a að föngum verði fækkað úr ríflega 150 þúsund niður í 110 þúsund á tveimur árum. Það sé eina leiðin til að tryggja viðunandi læknisþjónustu í fangelsum fylkisins.