Breskir póstmenn í verkfall

Rúmlega 25 þúsund starfsmenn bresku póstþjónustunnar efna til skæruverkfalla á næstu dögum til að mótmæla fækkun starfa og launalækkunum. Verkfallið mun hafa víðtæk áhrif um nær allt Bretland.

Starfsmenn bresku póstþjónustunnar hafa á undanförnum vikum gripið til skyndiverkfalla til að mótmæla hagræðingaraðgerðum.

Fyrsta verkfallið hefst í fyrramálið. Þá leggja póstbílstjórar í Birmingham, Coventry, Essex og London niður vinnu í sólarhring. Á laugardag leggja starfsmenn póstsins í Bristol, Somerset og Edinborg niður vinnu og á mánudag bætast starfsmenn Royal Mail í Suffolk í hóp verkfallsmanna.

Frekari verkföll eru fyrirhuguð í næstu viku.

Talsmaður stéttarfélags breskra póstmanna segir hagræðingaraðgerðir stjórnenda Royal Mail einhliða og fálmkenndar.

Talsmenn Royal Mail fordæma aðgerðir starfsmanna og brigsla póstmönnum um svik á samkomulagi sem gert var í júní í fyrra. Þá efndu póststarfsmenn til sólarhringsverkfalls en verkfallið var hið fyrsta í 11 ár. Líkt og nú var launakjörum og væntanlegum uppsögnum mótmælt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert