Berlusconi hefur ekkert að fela

Silvio Berlusconi stendur fast á sínu.
Silvio Berlusconi stendur fast á sínu. Reuters

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, blæs á gagnrýnisraddir sem hafa skotið föstum skotum að því hvernig ráðherrann hefur hegðað sér. Kvennamál hans og mörg hneykslismál hafa farið fyrir brjóstið á mörgum.

Berlusconi segist ekki þurfa að biðjast afsökunar á einu eða neinu. Hann hafi ekkert að fela. Þá segir hann að enginn geti fjárkúgað sig.

Nýverið var ráðherrann sakaður um að hafa sængað hjá vændiskonu á heimili sínu í Róm. Hann neitar því hins vegar að hafa nokkru sinni greitt fyrir kynlíf.

Berlusconi lét ummælin falla á blaðamannafundi í Róm.

Hann segir að ummæli Barböru dóttur sinnar, sem birtust nýverið í tímariti, hafi verið tekin úr samhengi. En í viðtalinu virðist hún skamma föður sinn á mildan hátt fyrir það hvernig hann hagar sér.

Berlusconi segist ekki þurfa að skammast sín fyrir eitt né neitt í sínu einkalífi. Þá þurfi hann ekki biðja fjölskyldu sína afsökunar.

Þá vísar hann því alfarið á bug að hann hati konur, en því hefur verið haldið fram í erlendum dagblöðum.

„Ef það er eitthvað sem ég dýrka, þá er það konur,“ sagði hinn 72 ára gamli forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert