Peningamenn eru í auknum mæli farnir að nýta sér Danmörk sem millilið við að koma peningum úr skattaskjólum og yfir til Bandaríkjanna. Er í dönskum fjölmiðlum, sagður aukinn pólitískur þrýstingur á ráðherra skattamála Kristian Jensen að stemma stigu við þessari þróun.
Í danska blaðinu Börsen kemur fram að algengt sé að Danmörk sé viðkomustaður milli Bandaríkjanna og viðkomandi skattaskjóls.
Skattsvikin eru sögð hafa aukist hratt síðustu ár og yfirleitt gerð í gegnum svokölluð "skúffufyrirtæki." Í Copenhagen Post er tekið dæmi um að fé sem geymt var í banka í skattaskjóli í Karabíska hafinu hafi yfirleitt verið fært yfir til Hollands, þar sem erlendur arður hafi ekki verið skattlagður. Þetta fé hafi síðan verið fært til Danmerkur án skattlagningar og að endingu fært yfir til Bandaríkjanna.
Í ljósi þessa er sagt kaldhæðnislegt að Danmörk hafi ásamt öðrum Norðurlöndum krafist aðgerða gegn skattaskjólum.
Þá eru, samkvæmt Magasinets Finans, nokkur dönsk fyrirtæki flækt í mál sem höfðað er gegn UBS banka í Bandaríkjunum, þar sem svissnesk fjármálastofnun hefur samþykkt að greiða um 780 milljónir bandaríkjadala í sektir og bætur, í skiptum fyrir nöfn yfir 17.000 skattsvikara.
Talsmaður danska íhaldsflokksins, Mike Legarth krefst í Börsen aðgerða til að koma í veg fyrir að Danmörk sé nýtt sem skattaskjól og mun óska eftir greinargerð frá ráðherra skattamála um hvernig taka eigi á málinu.
Haft er eftir dönskum skattaráðgjafa að svindlið sé mögulegt vegna þess hve vægt skattaeftirlitið sé. Lögreglan taki ekki á skattsvikum nema þau séu augljós og enginn fylgist með því hver taki að endingu við peningunum. Þar að auki sé verið að skera niður í skattrannsóknum.