Grænlensk börn sem tilraunadýr

mbl.is/Ómar

„Við krefjumst þess að málið verði rannsakað til hlítar,“ segir Kuupik Kleist, formaður landsstjórnar Grænlands, og vísar þar til nýrra upplýsinga þess efnis að dönsk stjórnvöld hafi í upphafi sjötta áratugar síðustu aldar fjarlægt 22 grænlensk börn af heiminum sínum með það að markmiði að nota þau sem tilraunadýr. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken. 

Árið 1951 létu dönsk stjórnvöld fjarlægja 22 grænlensk börn á aldrinum fimm til átta ára af heimilum sínum. Börnin misstu við þetta tengslin við fjölskyldur sínar, tungumálið og menninguna. Ætlunin var að barnahópurinn ætti að verða eins konar framvarðarsveit í nýju tveggja tungumála skólakerfi Grænlendinga og var þeim því markvisst kennd danska og dönsk menning. 

Tilraunin mistókst, en börnin snéru samt aldrei heim til fjölskyldna sinna. Sum barnanna voru ættleidd eftir að samþykkis hafði verið leitað hjá fjölskyldum þeirra með vægast sagt vafasömum hætti. Flest barnanna eyddu hins vegar restinni af bernsku sinni á barnaheimilum. 

Rúmlega helmingur þessara barna dó langt um aldur fram, en þau börn sem lifðu hremmingarnar af krefjast þess nú að málið verði rannsakað, þau beðin afsökunar og þeim greiddar skaðabætur. 

Í samtali við Politiken segist Kleist ætla að taka málið upp við Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana. 

 „Ég átel stjórnvöld sem meðhöndluðu okkur eins og við værum tilraunadýr,“ segir Helene Thiesen, sem var sjö ára þegar hún var valin til að taka þátt í dönsku rannsókninni.

Í dag er Thiesen 65 ára, en það eru aðeins 11 ár síðan hún komst af því af hverju hún var numin á brott frá fjölskyldu sinni. Stjórnvöld hafa nefnilega aldrei útskýrt fyrir fjölskyldunum sem í hlut áttu af hverju fjarlægja varð börnin af heimilum sem síðan skyldu hreinsuð af grænlenskum uppruna sínum. 

Meðal þeirra sem komu að tilrauninni á sínum tíma voru samtökin Bjargið barninu og Rauði kross Danmerkur. Forsvarsmenn beggja samtaka segjast líta málið alvarlegum augum og að mistök hafi verið gerð. Segjast þeir hafa lært mikið af málinu og geri nú sitt besta til þess að bjóða mannréttindaaðstoð sem stuðli að því að styrkja upprunalega menningu fólks og þjóðtungu þess. 

Haft er eftir Martin Henriksen, hjá Danska þjóðarflokknum, að viðeigandi væri að Karen Ellemann, félagsmálaráðherra Dana, lýsti því yfir að tilraunin hefði verið „augljós mistök af hálfu dönsku ríkisstjórnarinnar“. Hann telur að rannsókn málsins eigi að vera í höndum grænlensku landstjórnarinnar og segist opinn fyrir því að grænlensk stjórnvöld fái opinberan styrk frá Dönum til þess að standa straum af slíkri rannsókn. Karen Ellemann kýs ekki að tjá sig um málið að svo stöddu og vísar á forsætisráðherra, en hann hefur heldur ekki viljað tjáð sig um málið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert