Fellibylurinn Morakot ógnar milljónum manna

Að minnsta kosti þrír eru látnir í Taívan af völdum fellibylsins Morakot. Fellibylurinn hefur valdið verstu flóðum í landinu í hálfa öld. Morakot nálgaðist strendur Kína í nótt og voru um milljón manns fluttir burt frá heimilum sínum í Fujian héraði á suðausturströnd Kína í nótt.

Fellibylurinn Morakot hefur geisað á Taívan um helgina. Úrhellisriging og gríðarleg flóð hafa fylgt fellibylnum. Metúrkoma hefur fylgt fellibylnum en hún mældist yfir 2000 millimetrar. Vindhraði hefur farið í um 180 kílómetra á klukkustund eða yfir 50 metra á sekúndu.

Skortur er á mat og drykkjarvatni og rafmagn er farið af stórum hluta landsins.

Her landsins var kallaður til hjálpar íbúum en tugþúsundir manna eru innilokaðir í suðurhluta Taívan af völdum flóðanna. hermenn hafa fært fólki á flóðasvæðunum mat og drykkjarvatn. Að minnsta kosti þrír eru látnir og yfir 30 er saknað.

Morakot hefur einnig valdið usla á Filippseyjum en þar hafa að minnsta kosti 20 manns látist af völdum flóða og aurskriða sem fylgt hafa fellibylnum. Sjö er saknað.

Tjón af völdum Morakot er talið nema yfir 100 milljörðum íslenskra króna.

Öflugur fellibylur gekk yfir Taívan í ágúst 1959 en þá létust 667 og yfir þúsund var saknað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert