Nýjustu rannsóknir benda til þess að Danir verði ekki lengur sjálfbærir um orku og eldsneyti eftir níu ár. Þetta gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjárhag landsins. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken.
Í nýrri skýrslu Orkuráðsins kemur fram að Danir geti aðeins reiknað með að framleiða næga olíu og jarðgas fyrir heimamarkað fram til ársins 2018, en þurfi eftir það að flytja slíkt eldsneyti inn eða skipta um orkugjafa.
„Við erum þess fullvissir að ekki verði hægt að finna fleiri stórar uppsprettur olíu eða jarðgass í Norðursjó, því þá værum við þegar búnir að finna þær. Þeim rannsóknarborholum þar sem við finnum ekkert fjölgar því miður sífellt,“ segir Anders Eldrup, starfandi forstjóri hjá ríkisfyrirtækinu Dong Energy.
Danir hafa síðan á tíunda áratug síðustu aldar verið sjálfbærir um allt eldsneyti og er raunar eina landið í Evrópusambandið sem flutt hefur meira úr landi en inn af olíu. Framleiðslan á olíu og jarðgasi hefur hins vegar snarminnkað á síðustu fimm árum. Sem dæmi nam samdrátturinn á síðasta ári 7%.
Tekjurnar af olíuvinnslu í Norðursjó geta að nokkru skýrt góða afkomutölur bæði ríkisstjórnarinnar sem og skipafyrirtækisins A.P. Møller. Þannig námu tekjur ríkisins af olíu- og jarðgasútflutningi 36 milljörðum danskra króna í fyrra.
Peter Birch Sørensen, hagfræðiprófessor hjá Kaupmannahafnarháskóla, segir dönsk stjórnvöld geta staðið frammi fyrir miklum erfiðleikum þegar þessar tekjur hætti að skila sér. Að hans mati hefði verið gáfulegra að setja tekjur af olíusölu úr Norðursjó í sérstakan olíusjóð í stað þess að nýta fjármunina til þess að standa straum af auknum ríkisútgjöldum á síðustu árum.
„Ef peningarnir hefðu verið lagðir í sérstakan sjóð þá hefðum við fengið réttari mynd af tekjuafgangi ríkissjóðs en ella. Það hefði getað dregið úr líkum þess að yfirvöld freistuðust til þess að eyða um efni fram eða fara í óskynsamlegar skattalækkanir á því sem virtist uppsveiflutíma. Það hefði aftur þýtt að við værum í sterkari stöðu til þess að takast á við fjármálakrísuna á núverandi tímapunkti,“ segir Sørensen.