Leiðtogar Bandaríkjanna, Kanda og Mexíkó hétu í dag að berjast gegn útbreiðslu inflúensu A(H1N1), sem jafnan er kölluð svínaflensa. Þá hétu þeir að berjast gegn loftlagsbreytingum en skoðanir voru skiptar hvað varðar efnahagsmál.
Barack Obama Bandaríkjaforseti, Felipe Calderon, forseti Mexíkó og Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, funduðu saman í Mexíkó í dag.
Obama og Harper segja að bandarísk og kanadísk stjórnvöld muni deila upplýsingum er varða baráttu við frekari útbreiðslu svínaflensunnar í haust.
„Eins og við vitum þá mun H1N1 snúa aftur í vetur,“ sagði Calderon á sameiginlegum blaðamannafundi í dag. „Við erum að undirbúa okkur, í öllum þremur löndunum, að takast á við þetta óvissuástand af ábyrgð og draga úr afleiðingum sjúkdómsins á landsmenn.“
Leiðtogarnir hétu því að virða fríverslunarsamning Norður-Ameríku, sem sameinar ríkin í verslun og viðskiptum. En leiðtogarnir voru ekki sammála um allt.
Harper ræddi við Obama um áhyggjur Kanadamanna um hvatningu Bandaríkjastjórnar til almennings að „kaupa bandarískt“. Stjórnvöld í Kanada óttast að þetta muni hafa slæm áhrif á kanadískt fyrirtæki.
Ekkert ríki á í meiri viðskiptum við Bandaríkin heldur en Kanada.