Hillary Clinton sýndi klærnar

Hillary Clinton er aðal, ekki Bill Clinton.
Hillary Clinton er aðal, ekki Bill Clinton. Reuters

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sýndi klærnar á ferðalagi sínu um Afríku þegar nemandi spurði hana hver væri skoðun eiginmanns hennar, Bills Clintons fyrrum Bandaríkjanna, á tilteknu máli. Clinton brást reið við og minnti nemandann á að hún væri utanríkisráðherra, ekki Bill Clinton.

Á opnum umræðufundi með ungu fólki í Kinshasa í Lýðveldinu Kongó spurði einn háskólanemi um áhrif Kína og Alþjóðabankans í landinu.

„Hver er skoðun herra Clinton á málinu,“ spurði hann og greina mátti undrun viðstaddra.

„Viltu vita hvað eiginmanni mínum finnst,“ hreytti Clinton út úr sér.

„Eiginmaður minn er ekki utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ég er það. Spurðu mig um mitt álit og ég mun svara þér. Það er ekki mitt að koma skoðunum eiginmanns míns á framfæri.“

Bill Clinton var forset Bandaríkjanna frá 1993 til 2001. Hillary Clinton er ötull baráttumaður fyrir kynjajafnrétti og tapaði naumlega fyrir Barack Obama í forkosningunum fyrir forsetakosningar vestra í fyrra.

Bill Clinton hefur að mestu haldið sig til hlés þegar Hillary kemur fram fyrir hönd þjóðar sinnar á erlendum vettvangi. Það vakti hins vegar mikla athygli þegar hann ferðaðist til Norður-Kóreu í síðustu viku og fékk tvo bandaríska fréttamenn lausa úr haldi þarlendra yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka