Dæmdur til lífstíðar

Scheungraber bíður úrskurðarins.
Scheungraber bíður úrskurðarins. Reuters

Þýskur dómstóll hefur dæmt níræðan fyrrverandi hershöfðingja í lífstíðarfangelsi fyrir að fyrirskipa fjöldaaftökur á almennum borgurum í ítölsku þorpi árið 1944. Réttarhöldin eru ein þau síðustu sem haldin eru vegna stríðsglæpa á tímum nasista í Þýskalandi.

Josef Scheungraber var dæmdur fyrir tífalt morð að sögn vefsíðu Spiegel. Sönnunargögn þóttu sýna svo ekki var um deilt að Scheunberger gaf fyrirmæli í Toskana-héraði árið 1944 um að láta myrða ítalska borgara í hefndarskyni fyrir dauða tveggja hermanna. Meðal þeirra sem skotin voru til bana á götum úti var 74 ára gömul kona. Alls féllu fjórtán manns en sönnunargögn dugðu aðeins til að sakfella Scheungraber fyrir dauða tíu þeirra.

Scheungraber hafði búið í bænum Ottobrunn í Bæjaralandi þar sem hann rak verslun og tók þátt í göngum í minningu fallinna hermanna frá tíð nasista. Scheungraber hefur vísað ákærunni á bug í þá ellefu mánuði sem málið hefur verið fyrir rétti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert