Dómur yfir leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Búrma og friðarverðlaunahafa Nóbels, Aung San Suu Kyi, hefur vakið hörð viðbrögð í morgun. Meðal þeirra sem hafa mótmælt dómnum er Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs en hann skrifaði harða gagnrýni á dóminn inn á Twitter síðu sína í morgun.
Nokkru síðar gaf utanríkisráðuneytið norska út fréttatilkynningu þar sem orðalagið var heldur mildara en á Twitter síðu ráðherranns. Í tilkynningunni segir að það sé mikilvægt að alþjóðasamfélagið bregðist við dóminum.
Hins vegar skrifaði hann á Twitter: „Aung San Suu Kyi dæmd í 18 mánaða stofufangelsi. Fordæmi það, herforingjastjórnin vill að hún komi ekki nálægt kosningunum, óásættanlegt. Mikilvægt að viðhalda þrýstingi."
Suu Kyi, var dæmd í þriggja ára fangelsi og erfiðisvinnu af dómstólum í Búrma í morgun. Herforingjastjórnin mildaði dóminn í 18 mánaða stofufangelsi.
Evrópusambandið hefur einnig fordæmt dóminn yfir Suu Kyi og segir að viðskiptaþvingunum verði beitt gegn herforingjastjórninni á Búrma.
Anifah Aman, utanríkisráðherra Malasíu segist vera vonsvikinn yfir ákvörðun dómsins að dæma Suu Kyi seka. Hann telur nauðsynlegt að boða strax til fundar utanríkisráðherra Asíuríkjanna til þess að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem blasi við.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, segist bæði vera reiður og sorgmæddur yfir dómnum og segir réttarhöldin vera skammarleg. Hann segir að hann hafi aldrei leynt því að Bretar muni bregðast jákvætt við öllum fregnum um að Búrma þokaðist í lýðræðisátt en þessi fregn bendi til annars og ekkert annað sé í stöðunni en að alþjóða samfélagið bregðist hart við.
Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, hvetur Evrópusambandið til þess að bregðast strax við og herða refsiaðgerðir gegn Búrma.