Golf ekki íþrótt fólksins

Hugo Chavez
Hugo Chavez Reuters

Stjórnmálahreyfing Hugos Chávez í Venesúela hefur nú hafið að skjóta hörðum skotum að kylfingum landsins eftir að forsetinn sagði sjálfur í sjónvarpi fyrir skömmu að golf væri „borgaraleg íþrótt.“ Hann hélt svo áfram að hæðast að íþróttinni og sagði golfbíla merki um leti íþróttamannanna.

Flokksbræður Chávez hafa að undanförnu unnið að því að loka tveimur þekktustu golfvöllum landsins, í borginni Maracay og í strandborginni Caraballeda, þetta kemur fram á vefsíðu New York Times. Haldi lokanirnar áfram hefur níu golfvöllum verið lokað í Venesúela á undanförnum þremur árum.  

Flestir golfvallanna sem lokað hefur verið eru í olíuhéruðum og voru byggðir fyrir Bandaríkjamenn sem unnu í olíuiðnaðinum og því álitnir skjól gömlu elítunnar. Chávez hefur nefnt húsnæðisvanda sem ástæðu fyrir lokun golfvallanna og er ráðgert að byggja heimili fyrir lágtekjufólk á landi golfvallarins í Maracay eða þá að byggja þar stúdentagarða.

„Ég virði allar íþróttir,“ sagði Chávez í sjónvarpsávarpinu. „En það eru íþróttir og svo annarskonar íþróttir. Ætlið þið að segja mér að golf sé íþrótt fólksins?“ Hann átti sjálfur við því einfalt svar: „Alls ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert