Því er spáð, að mannkynið verði 7 milljarðar einstaklinga á næsta ári. Fólksfjölgunin er mest í þróunarríkjum og í mörgum tilfellum í fátækustu ríkjum heims, að sögn bandarískrar fólksfjöldastofnunar. Indland verður fjölmennasta ríki veraldar árið 2050 gangi spár eftir.
Talið er að mannkynið hafi náð 6 milljarða markinu árið 1999 og mannfjöldi í heiminum er nú rúmir 6,8 milljarðar. Að sögn stofnunarinnar, Population Reference Bureau mun 97% af fólksfjölguninni á næstu 40 árum verða í Asíu, Afríku, Latnesku-Ameríku og við Karíbahaf.
Þá eru 90% ungmenna, 1,2 milljarðar manna, í þróunarríkjum. Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN hefur eftir Carl Haub, sem gert hefur skýrslu um mannfjöldaþróun, að á næstu áratugum muni þessi ungmenni leita frá sveitum í borgir þar sem betri tækifæri eru til menntunar og atvinnu og heilsugæsla er betri.
Af þróuðum ríkjum er fólksfjölgun einna mest í Bandaríkjunum og Kanada, m.a. vegna þess hve margir innflytjendur setjast þar að. Því er hins vegar spáð að fólksfjölgunin verði mun meiri í þróunarríkjum. Nú býr 31 milljón manns í Kanada og 34 milljónir í Úganda. Samkvæmt spám stofnunarinnar verða Kanadamenn 42 milljónir árið 2050 en Úgandabúar verði 96 milljónir.
Þá er því spáð, að Indland verði fjölmennasta ríki heims árið 2050, og þar muni búa 1,7 milljarðar manna. Kínverjar, sem nú eru fjölmennasta þjóðin, verði 1,4 milljarðar talsins. Bandaríkin verða þriðja fjölmennasta ríkin með 439 milljónir íbúa.