Rússar herða leit að Arctic Sea

Arctic Sea er skráð í Lettlandi.
Arctic Sea er skráð í Lettlandi.

Enn er allt á huldu um afdrif flutningaskipsins Arctic Sea sem talið er að rænt hafi verið á siglingu um Ermarsund. AFP-fréttastofan greinir frá því í dag að  Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, hafi fyrirskipað rússneska sjóhernum að taka fullan þátt í leit að skipinu.

Fyrirmæli Medvedev til varnarmálaráðuneytisins rússneska kveða á um „að gripið verði til allra nauðsynlegra ráða til að finna og frelsa“ hið horfna skip og áhöfn þess, fimmtán Rússa, er haft eftir talsmanni forsetans í Kreml í rússneskum fréttastofufréttum.

Til viðbótar við leitarskip verður ratskrárkerfi Rússa, þar með taldir eftirlitshnettir í geimnum, beitt við leit að skipinu.

Miklar vangaveltur eru um afdrif skipsins en með ólíkindum þykir að því hafi verið rænt með einungis timburfarm innanborðs. Kenningar eru uppi um að gefa eigi skipinu nýtt nafn og númer og beita því við rán á förmum úr öðrum flutningaskipum, eða rússneskir glæpamenn noti það við smygl á ólöglegum vopnum. Talið er af og frá að áhöfnin geti verið þáttakandi í einhverju vafasömu athæfi, þar sem hún sé margreynd og njóti fulls traust útgerðarinnar.

Viðskiptadeila eiganda og þriðja aðila?

Í The Guardian í dag kemur kemur fram að Nick Davis, forstöðumaður Merchan Maritime Cantre, hafi sett fram annars konar kenningu um afdrif Arctic Sea í viðtali í BBC.

„Það er ekki að flytja verðamætan farm ... lítilsháttar timburfarmur milli Eystrasaltslanda og Alsír er ekki dýrmætur farmur, svo að mig grunar sterklega að hér sé um að ræða viðskiptadeilu milli eigandans og þriðja aðila, sem hafi ákveðið að grípa til sinna ráða,“ sagði Davis.

„Ég tel sterkar líkur á að skipið sigli nú niður með vesturströnd Afríku, jafnvel alla leið niðurundir Nígeríu og skipinu verður líklegast gefið nýtt nafn, endurmálað og áhöfninni komið á einhvern flugvöll, heilli á húfi væntanlega, þar sem hún gefi sig á einhvern hátt fram með þessum orðum: - Við erum áhöfnin á þessu skipi og við viljum komast heim.“

Reynist hins vegar um sjórán að ræða þá er slíkt fordæmalaust á þeim slóðum sem ránið á að hafa átt sér stað. „Það væri stórfurðulegt. Slíkt gerist einfaldlega ekki. Þessa hafsvæðis er vandlega gætt,“ segir Jeremy Harrison hjá kaupskiparáðinu breska í samtali við The Guardian.

Það getur þó reynst þrautum þyngra að leita uppi skipið hafi verið slökkt á sjálfvirkum auðkennisbúnaði skipsins, svokölluðu AIS merki. „Það getur tekið nógu langan tíma að finna skip í nauð, jafnvel þótt staðsetningin sé nokkurn veginn þekkt. En ef skipið er enn ofansjávar og reynir að fela sig þá...þetta er víðáttuhaf“, segir Harrison.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert