Rússnesk herskip eru nú komin út á Atlantshaf til leitar að flutningaskipinu Arctic Sea sem ekkert hefur spurst til frá því um mánaðamótin, og óttast er að hafi verið rænt í þann mund sem skipið sigldi um Ermarsund á leið frá Finnlandi til Alsír með timburfarm. 15 manna áhöfn er á skipinu, allt Rússar.
Fyrir rússnesku leitarskipunum fer Ladny úr Svartahafsflota Rússa en skipið fór um Gíbraltarsund í gær til móts við önnur leitarskip af ýmsu þjóðerni. Talsmaður rússneska hersins segir að öllum upplýsingum sé beint til yfirstjórnar leitarinnar um borð í skipinu og þær greindar jafnhraðan.
Arctic Sea kann að hafa verið á valdi sjóræningja þegar það hafði síðast samband við strandgæsluna í Dover á Bretlandi þegar það var að sigla inn Ermarsundið 28. júlí, en fimm dögum áður hafði hópur grímuklæddra manna farið um borð í skipið í Eystrasalti undir því yfirskyni að þeir væru lögreglumenn að leita fíkniefna. Hvarf skipsins hefur vakið upp ótta um að sjórán kunni að vera að breiðast út til evrópsks hafsvæðis.
Mikhail Voitenko, ritstjóri hins virta fagfréttabréfs, Sovfract Maritime Bulletin, er þó ekki trúaður á slík. „Hvers vegna ættu sjóræningjar að leggja allt þetta á sig þegar allt er fullt af fullfermdum skipum í höfn? Þetta er algjörlega óáhugaverður farmur,“ segir hann um timburfarminn sem virtur er á um 1,4 milljónir evra, um 255 millj. króna, og skipið átti að afferma í borginni Bejaïa í Alsír 4. ágúst sl.
Hann telur mestar líkur á að áhöfnin hafi dregist inn í einhverskonar mafíuátök um ólöglegan varning. „Ég held að það megi tengja þetta tilraun til að sigla með einhvern leynilegan farm, og að einhver vilji ekki að þessi farmur nái á áfangastað,“ segir Voitenko.