Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finna, sendi í dag frá sér bók þar sem hann veitir ráðleggingar um líkamsrækt. Á blaðamannafundi í dag hvatti Stubb landa sína til að rísa upp úr sófanum og fara að hjóla.
„Fundadagbókin stjórnar lífi mínu en hátindar dagsins eru þegar ég kemst á æfingu og þegar ég fer heim," sagði Stubb. „Einnar klukkustundar líkamsrækt gefur manni aukaorku í tvo tíma."
Stubb, sem er 41 árs, fjallar í bókinni um hjólreiðar, hlaup, sund og skíðagöngu. Hann leitar þar ráða hjá nokkrum kunnustu íþróttamönnum Finna, þar á meðal Virpi Kuitunen, ólympíumeistara í skíðagöngu.
Stubb dreymdi um það á æskuárum að verða atvinnumaður í íshokkí eða golfi. Hann segir að í bókinni fjalli hann um hvernig eigi að finna jafnvægið milli hóflegrar líkamsæfingar, mataræðis og hvíldar. Hann sagðist ætla að gefa samráðherrum sínum í finnsku ríkisstjórninni bókina.
Stubb ætlar að taka þátt í þríþraut í Helsinki í september.