Mál Megrahi vekur reiði

Óstaðfestar fregnir um að samið hafi verið um að Abdelbaset Ali al-Megrahi, sem dæmdur var fyrir aðild sína að Lockerbietilræðinu á níunda áratugnum, verði fluttur aftur til heimalandsins, Líbýu, hafa vakið reiði á meðal aðstandenda fórnarlambanna. Eitt þeirra segir ásókn í olíu skýra málið. 

Bert Ammerman, bróðir eins þeirra sem lést, er ævareiður og gefur lítið fyrir þau rök að flytja beri Megrahi heim af samúðarástæðum, með þeim rökum að hann sé við dauðans dyr í baráttu sinni við krabbamein.

„Þetta er brjálæði, siðlaust. Samúð? Maðurinn var dæmdur fyrir fjöldamorð á 270 manneskjum. Samúðin sem að honum hefur verið sýnd er lífstíðarfangelsi í einangrun. Hvað á að segja við fjölskyldur fórnarlambanna sem hafa þurft að lifa við þetta í 21 ár?“ spyr Ammerman. 

„Ástæðan fyrir þessu er sú að Bandaríkjamenn og Bretar vilja opna fyrir samskiptin [við Líbýu] á ný til að komast í olíuna. Það er það ámælisverðasta við allt þetta ferli.“

Hjá skoskum stjórnvöldum fást þau svör að ekkert samkomulag liggi fyrir. Lögmaður Megrahi tjáir sig ekki um málið en Reuters-fréttastofan hefur hins vegar eftir fulltrúa stjórnvalda í Tripoli að samningar séu á lokastigi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert