Myrti systur sína

Jórdanskur karlmaður hefur verið ákærður fyrir að skjóta þungaða systur sína til bana fyrir það eitt að hafa gengið í hjónaband án heimildar fjölskyldunnar. Myrti hann konuna eftir að hafa tælt hana í brúðkaupsveislu hjá bróður þeirra. Tók sá bróðir þátt í samsærinu gegn systurinni, að sögn lögreglu.

Hinn ákærði, þrítugur að aldri, skaut systur sína, 23 ára gamlan hjúkrunarfræðing, í fjögur skipti er hún mætti í brúðkaupið í gær. 

Að sögn lögreglu átti hún lítinn son en hún gekk í hjónaband fyrir tveimur árum eftir að hafa strokið að heiman.  Segir lögregla að  bræður hennar hafi ákveðið að myrða hana í hefndarskyni fyrir að hafa ekki gifst manni sem fjölskyldan lagði blessun sína yfir. Á meðan einn bróðirinn skaut hana ítrekað þá gengu tveir aðrir bræður  í skrokk á eiginmanni hennar.

Þeir hafa verið ákærðir fyrir að hafa veitt aðstoð við morðið. Hægt er að dæma menn til dauða fyrir morð í Jórdaníu en það er yfirleitt aldrei gert í málum sem þessum. Yfirleitt þarf viðkomandi morðingi ekki að sitja í fangelsi heldur fær skilorðsbundinn dóm eða fær áminningu frá dómara. Á hverju ári eru 15-20 konur myrtar í Jórdaníu vegna svipaðra mála en slík morð ganga undir heitinu sæmdarmorð þar sem yfirleitt telja karlmenn í fjölskyldunni ekki annað fært en að myrða viðkomandi þar sem sá hafi brotið gegn sæmd fjölskyldunnar.

Fyrr í vikunni var karlmaður ákærður fyrir morð í Jórdaníu fyrir að hafa skotið frænku sína til bana en henni hafði verið nauðgað. Slíkt telst einnig sæmdarmorð og væntanlega mun hann ekki þurfa að dúsa í fangelsi fyrir morðið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka