Frumvarp sem lögleiðir mismunun á hendur sjítakonum í Afganistan er orðið að lögum að sögn Mannréttindavaktarinnar. Samtökin saka forseta landsins, Hamid Karzai, um að nota réttindi kvenna til að afla sér atkvæða. Alþjóðlegir stuðningsmenn eru hvattir til að bregðast við.
„Áhrifamiklir alþjóðlegir stuðningsmenn Afganistans ættu að krefjast þess að Hamid Karzai vinni að breytingu á þessum illræmdu lögum sem lögleiða mismunun á hendur sjítakonum,“ segir í yfirlýsingum frá samtökunum. „Réttur afganskra kvenna er brotinn upp af valdamiklum körlum sem nota konur sem veð í valdabaráttu sinni. Slík lög hefðu átt að vera upprætt þegar talibönum var komið frá völdum 2001 en Karzai endurvekur þau og gefur þeim samþykki sitt,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.
Engin yfirlýsing hefur borist frá afgönskum yfirvöldum vegna málsins.
Konur fullnægi kynlífsþörfum eiginmannanna
Í apríl fyrirskipaði Karzai dómsmálaráðuneytinu að yfirfara frumvarpið, vegna þrýstings frá alþjóðasamfélaginu, en hann hafði þegar undirritað frumvarpið í mars. Mannréttindasamtök segja lögin lögleiða illa meðferð á konum, rétt eins og þá sem tíðkaðist í valdatíð talibana. Karzai, sem talið er að fari með sigur af hólmi í komandi forsetakosningum, fyrirskipaði að allar þær greinar yrðu fjarlægðar sem brytu á réttindum kvenna.
Mannréttindavaktin segir að í lokagerði laganna sé enn að finna margar greinar sem svipti konur rétti sínum. M.a. réttur eiginmanns til að neita eiginkonu sinni um grunnþarfir, eins og mat, neiti hún að mæta kynlífsþörfum hans. Þá er réttur yfir börnum er aðeins veittur feðrum og öfum. Þá þurfa konur að fá leyfi eiginmannanna til að vinna og leyfir nauðgurum að sleppa við lögsókn borgi hann stúlkunni „blóðpeninga.“
Samtökin saka Karzai um að hafa gert samkomulag við harðlínusjíta í landinu sem vilji sérstaka löggjöf um fjölskyldumál, í skiptum fyrir stuðning í konsingunum. Sjítar eru um 15% afgönsku þjóðarinnar.