Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) tilkynnti í gær að brátt yrði 250 milljörðum dala á hans vegum, dælt í ríkiskassa aðildarþjóða sjóðsins til að milda áhrif alþjóðlega fjármálavandans og gert ráð fyrir að úthlutun fari fram þann 28. ágúst nk.
Stjórnarmenn samþykktu að úthluta til 186 aðildarlanda sjóðsins í þeim tilgangi að veita fjármagni í efnahagskerfið á heimsvísu með að styðja við gjaldeyrisvarasjóði ríkjanna. Var samþykkt að veita SDR að jafngildi 250 milljarða dala og er það lang stærsta SDR úthlutun í sextíu ára sögu sjóðsins.
Aðgerðin er hluti af aðgerðaáætlun sem samþykkt var á fundi tuttugu þjóðarleiðtoga (G20) í apíl þar leitað var leiða til að taka á fjármála og efnahagsvandanum sem þjóðir heims eru í. G20 ríkin samþykktu í framhaldinu að þrefalda sjóði AGS, í 750 milljarða dala.
Þá tilkynnti AGS að önnur úthlutun upp á um 33 milljónir SDR væri fyrirhuguð þann 9. september.
Var haft eftir talsmönnum AGS að hin almenna SDR úthlutun sýni í hnotskurn viðbrögð á mörgum stigum við hinni alþjóðlegu krísu, með því að meðlimum sjóðsins sé boðinn mikilvægur stuðningur á þessum erfiðu tímum. Segir að sjóðurinn búist við að sumar þjóðir kjósi að selja hluta af úthlutun sinni til annarra landa í skiptum fyrir gjaldeyri meðan aðrir muni kjósa að kaupa fleiri SDR til að styrkja gjaldeyrisforða.
Er úthlutunin sögð risavaxin miðað við þann 21,4 milljarð SDR (33 milljarðar dala) sem var útdeilt í tveimur hlutum milli þjóða, annars vegar 1970-1972 (9,3 milljarðar SDR) og hins vegar 1979-1981 (12,1 milljarður SDR).
Með SDR er átt við vaxtaberandi AGS eign sem er byggð á myntkörfu – dala, jena, evra og punda – sem er reiknuð daglega og meðlimir geta skipt yfir í aðra gjaldmiðla.