Finnskir eigendur flutningaskipsins Arctic Sea, sem hvarf á Ermarsundi fyrir hálfum mánuði, segjast hafa fengið kröfu um lausnargjald fyrir skipið. Mikil leit hefur verið gerð að Arctic Sea og bárust fréttir af því í gær, að til þess hefði sést í nágrenni Grænhöfðaeyja við vesturströnd Afríku.
„Jú, það er rétt að það hefur komið fram krafa um lausnargjald og kröfunni hefur verið beint til fyrirtækisins, sem á skipið, Solhart Management í Finnlandi," sagði Jan Nyholm, yfirlögregluþjónn í Finnlandi við AFP.
Arctic Sea hvarf 28. júlí sl.skömmu eftir að það hélt inn í Ermarsund
og hafa miklar vangaveltur verið um afdrif þess, hvort skipinu hafi
verið rænt eða það sé með leynilegan farm innanborð, en upphaflega átti
skipið að sigla með timburfarm frá Finnlandi til Alsír. Áhöfn skipsins er rússnesk.