Danir deila um hvort banna eigi búrkur

Reuters

Múslímakonur, sem hylja sig frá hvirfli til ilja, eru nú eitt af helstu hitamálunum í dönskum stjórnmálum eftir að talsmaður Íhaldsflokksins í innflytjendamálum, Naser Khader, lagði til að íslamska búrkan yrði bönnuð opinberlega. Að minnsta kosti tveir flokkar eru klofnir í afstöðunni til málsins.

Khader segir að búrkan sé „ódönsk“ og táknræn fyrir undirokun kvenna. Danski þjóðarflokkurinn styður tillöguna og leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins er einnig hlynntur henni. Nokkrir aðrir jafnaðarmenn hafa þó hafnað henni, þeirra á meðal Mette Gjerskov, talsmaður flokksins í umhverfismálum.

Samstarfsflokkur Íhaldsflokksins í ríkisstjórninni, Venstre, er andvígur banni við búrkum og hvers konar lögum um klæðaburð fólks. Sömu sögu er að segja um flokkssystkin Khaders í samtökum ungra íhaldsmanna sem segja slík ríkisafskipti af klæðaburði fáránleg.

Brian Mikkelsen, dómsmálaráðherra og flokksbróðir Khaders, styður þó bann við búrkum. „Þetta mál snýst líka um umferðaröryggi,“ segir hann. „Þegar fólk keyrir bíl þarf það að geta séð til allra hliða.“

Torben Ruberg Rasmussen, lektor í Mið-Austurlandafræðum, segir deiluna til marks um að stjórnmálamenn séu ekki í tengslum við veruleikann. Mjög fáar konur klæðist búrkum í Danmörku og klæðnaðurinn valdi sárasjaldan vandamálum.

Naser Khader
Naser Khader Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka