Dómari sakaður um að hafa hunsað áfrýjunarbeiðni

Sharon Keller.
Sharon Keller.

Réttarhöld eru hafin í máli þekkts dómara í Texas í Bandaríkjunum sem er sakaður um að hafa neitað að leyfa verjendum dæmds morðingja, sem sat á dauðadeildinni svokölluðu, að áfrýja dómnum stuttu fyrir aftöku.

Sharon Keller er ákærð fyrir að hafa gerst brotleg í starfi, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins.

Þar segir að Michael Wayne Richard hafi verið tekinn af lífi nokkrum klukkustundum eftir að Keller hafi átt að hafa lokað skrifstofum dómstólsins, þrátt fyrir að henni hafi verið sagt að áfrýjun væri væntanleg.  

Helmingur allra aftaka í Bandaríkjunum á síðasta ári voru framkvæmdar í Texas. Þar hafa andstæðingar dauðarefsinga snúið upp á eftirnafn dómarans og kallað hann „Sharon Killer“, eða Sharon morðingi. Hún er þekkt fyrir að vera harður stuðningsmaður dauðarefsinga.

Aðeins nokkrum klukkustundum áður en aftakann átti að fara fram í september árið 2007 reyndu lögmenn Richards að áfrýja dómnum, sem er yfir áfrýjunardómstólnum í Texas.

Þeir töfðust vegna tölvuörðugleika og þegar þeir hringdu í dómstólinn og báðu menn um að bíða aðeins lengur, þá fengu þeir þau skilaboð að dómstóllinn hafi lokað kl. 17.

Richard, sem var dæmdur sekur um að hafa nauðgað og myrt konu fyrir 20 árum, var tekinn af lífi með sprautu þremur klukkustundum seinna. Hann var 26. fanginn sem var tekinn af lífi í Texas það ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert