Mannleg mistök að baki flugslysinu á Spáni

154 létust þegar vél Spanair fórst fyrir ári síðan, á …
154 létust þegar vél Spanair fórst fyrir ári síðan, á leið sinni til Kanaríeyja. Talið er að mistök flugmanns liggi að baki slysinu. Reuters

Talið er að mistök af hálfu flugmanns séu orsök þess að farþegaflugvél hrapaði í Madrid á Spáni fyrir ári siðan. 154 týndu lífi og var slysið hið versta sem orðið hefur á Spáni í tugi ára.

Flugslysanefnd hefur gefið út bráðabirgðaskýrslu þar sem fram kemur að vængbörð flugvélarinnar voru ekki rétt stillt fyrir flugtak og ennfremur að flugmennirnir fengu enga aðvörun þess efnis, frá kerfum vélarinnar.

Vængbörðin eru neðst á vængjum flugvéla. Þau eiga að síga að einhverju leyti fyrir flugtak til þess að auka yfirborð og styrk vængsins. Þegar lent er fara þau algerlega niður.

Vængbörðin stillast ekki sjálfkrafa heldur stilla flugmenn hversu mikið þarf að hreyfa þau eftir að hafa reiknað út þyngd vélarinnar og þá fjarlægð sem vélin þarf að fara áður en hún fer á loft, með tilliti til veðurs. Sömuleiðis þarf að taka tillit til þess að vélin þarf að geta stöðvast ef erfiðleikar koma upp í hreyflum vélarinnar á viðkvæmu augnabliki, sem er áður en hún nær nægilegum hraða til þess að takast á loft.

Fyrir utan þá 154 sem voru um borð voru 10.130 lítrar af flugvélaeldsneyti um borð í vélinni sem var á leiðinni til Kanaríeyja. Þyngd hennar var því nálægt hámarksþyngd og því var nákvæm stilling vængbarðanna enn mikilvægari en ella.

Flugslysanefndin hefur ekki lokið vinnu sinni. Hún beinir sjónum sínum áfram að hreyflum vélarinnar, gátlista flugmannanna og þeim kerfum sem áttu að vara flugmennina við því að flugvélin væri ekki tilbúin til brottfarar þar sem vængbörðin væru ekki rétt stillt.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert