Þeir sem vilja nesta börnin sín séu samningsbundnir söluaðilar

Þeir sem vilja nesta börnin sín í skólann í Árósum …
Þeir sem vilja nesta börnin sín í skólann í Árósum verða að gerast þjónustuaðilar fyrir bæinn. Mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Foreldrar og stjórnmálamenn í Danmörku eru gáttaðir yfir samningum sem foreldrar sem útbúa nesti með börnum sínum í skólann eru neyddir til þess að skrifa undir. Samkvæmt samningnum mega þeir ekki tala við fjölmiðla um málið, verða að gefa upp næringarinnihald nestisins og borga áfram matargjöld til skólans.

Foreldrar í tveimur leikskólum í Árósum eru orðnir söluaðilar matvöru fyrir sveitarfélagið af því að þeir kjósa að útbúa sjálfir nesti fyrir börn sín í stað þess að þau borði matinn sem leikskólinn býður upp á. Þannig mega þeir halda þeirri iðju áfram. Þetta kemur fram á fréttavef DR.

Þeir eiga samt sem áður að greiða 469 danskar krónur fyrir mat í skólanum, eins og allir aðrir. Í staðinn eru þeir hins vegar álitnir vera söluaðilar matvöru og fá þeir 350 danskar krónur borgaðar fyrir það. Þegar tekið er tillit til þess borga þeir sem sé 164 danskar krónur á mánuði fyrir að útbúa nesti fyrir barn sitt.

Á þeim hvíla hins vegar fleiri skyldur. Í samningnum eru nokkur ströng ákvæði. Þeir eiga til dæmis að láta yfirvöld í Árósum vita ef þeir tala við fjölmiðla og það skal vera áður en ummæli þeirra birtast í fjölmiðlum. Þá ber þeim einnig að láta vita af nákvæmu næringarinnihaldi nestisins.

Stjórnmálamenn og foreldrar eru gáttuð yfir málinu og segja þetta vera með hreinustu ólíkindum. Þá segja lögfræðingar að með því að banna nánast foreldrunum að tjá sig við fjölmiðla sé verið að brjóta á tjáningarfrelsinu.

Yfirmaður æskumála í Árósum hefur til þessa ekki útskýrt stefnu borgarinnar hvað þetta varðar en aðrir embættismenn hafa lagt til að slakað verði á kröfum til þeirra foreldra sem vilja útbúa nesti fyrir börn sín.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert