Vissu hvar Arctic Sea var

Stjórnvöld á Möltu, þar sem flutningaskipið Arctic Sea er skráð, sögðu í kvöld að  vitað hafi verið í nokkra daga hvar skipið var niðurkomið en stjórnvöld í Finnlandi, Svíþjóð og á Möltu, sem rannsökuðu málið, hefðu ákveðið að skýra ekki opinberlega frá því til að stofna öryggi áhafnarinnar og skipinu sjálfu ekki í hættu.

Rússnesk stjórnvöld hafi síðan staðfest í dag, að átta manns hefðu verið handteknir, grunaðir um að hafa rænt skipinu. Stjórnvöld á Möltu, í Finnlandi og Svíþjóð muni halda áfram að rannsaka málið.

Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN hafði í kvöld eftir talsmanni rússnesks tryggingafélags, sem tryggir skipið, að símtal hafi borist 3. ágúst frá manni, sem sagðist vera tengiliður ræningjanna og hann krafðist 1,5 milljóna dala í lausnargjald fyrir skipið, ella yrði áhöfnin myrt og skipinu sökkt. Það svarar til 190 milljóna króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert