Jóhanna meðal áhrifamestu kvenna

Jóhanna Sigurðardóttir er meðal áhrifamestu kvenna heims að mati Forbes.
Jóhanna Sigurðardóttir er meðal áhrifamestu kvenna heims að mati Forbes. mbl.is/Kristinn

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er áhrifamesta kona heims að mati bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er í 74. sæti á lista blaðsins yfir 100 áhrifamestu konurnar. Aðeins ein önnur kona á Norðurlöndunum kemst á listann en það er Tarja Halonen, Finnlandsforseti, sem er í 67. sæti.

Um Jóhönnu segir Forbes, að hún hafi tekið við embætti forsætisráðherra í febrúar af Geir H. Haarde, sem hafi orðið fyrsti þjóðarleiðtoginn sem fór frá völdum vegna fjármálakreppunnar. Smáþjóðin Ísland hafi nánast hrunið saman þegar þrír stærstu bankar landsins féllu vegna skulda. Jóhanna hafi unnið af krafti við að endurreisa bankakerfið og barist fyrir því að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Þá hafi hún undirritað stöðugleikasáttmála við aðila vinnumarkaðarins í júní, sem sé hornsteinn áætlunar stjórnvalda um endureisn efnahagslífsins. 

Merkel trónir á toppi lista Forbes fjórða árið í röð enda stýrir hún stærsta hagkerfi Evrópu og þykir líkleg til að ná endurkjöri í þingkosningum í Þýskalandi í haust.

Í næstu sætum á lista Forbes eru nær eingöngu konur sem eru framarlega í viðskiptalífi heimsins og endurspeglar það þá áherslu, sem heimurinn leggur á fjármálakreppuna og baráttuna við að halda fjármálamörkuðum gangandi. 

Sheila Bair, stjórnarformaður bandarísku innistæðutryggingastofnunarinnar, sem tryggir bandaríska banka, er í 2. sæti á listanum. Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo, er í 3. sæti, Cynthia Carroll, forstjóri námufélagsins Anglo American er í 4. sæti og  Ho Ching, forstjóri Temasek Holdings í Singapúr er í 5. sæti.

Það vekur athygli, að Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lækkar milli ára úr 28. sæti í 36. þótt hún stýri einu valdamesta ráðuneyti landsins. Michelle Obama, forsetafrú, er nú í fyrsta skipti á listanum, í 40. sæti. Elísabet Englandsdrottning er í 42. sæti.   

Heimasíða Forbes 

Angela Merkel ásamt Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta.
Angela Merkel ásamt Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka