Líbýumanni fagnað sem hetju

Líbýumanninum Abdelbaset Ali Mohmet al-Megrahi var fagnað sem hetju þegar hann kom með flugvél frá Glasgow í Skotlandi til Tripoli í Líbýu í kvöld. Al-Megrahi var fyrr í dag sleppt úr fangelsi í Glasgow af mannúðarástæðum en hann er dauðvona af völdum blöðruhálskrabbameins.

Hundruð ungmenna biðu á flugvellinum í Tripoli og veifuðu líbýskum og skoskum fánum. Al-Megrahi steig út úr flugvélinni klæddur svörtum fötum en hann var hvítklæddur þegar hann gekk inn í flugvélina í Glasgow. Seif al-Islam, sonur Múammars Gaddafis, Líbýuleiðtoga, leiddi hann út úr flugvélinni.  

Al-Megrahi, sem er eini maðurinn, sem sakfelldur hefur verið fyrir sprengjuárás á bandaríska farþegaflugvél yfir Lockerbie í Skotlandi árið 1988, sagði fyrr í dag að sér væri mjög létt að vera laus eftir að hafa setið í fangelsi í átta ár. Hann sagði hins vegar að dómurinn yfir sér hefði verið hneisa þar sem hann væri saklaus af ákærunni.

Bandarísk stjórnvöld og aðstandendur þeirra 270, sem létu lífið í Lockerbie, hafa í dag gagnrýnt að skosk stjórnvöld skyldu sleppa al-Megrahi lausum. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði í dag að Skotar hefðu gert mistök og Líbýumaðurinn ætti að vera í stofufangelsi.

Þá sagði P.J. Crowley, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, að stjórnvöld í Líbýu hefðu verið látin vita af því, að það yrði ekki vel séð ef al-Megrahy yrði fagnað við komuna til Líbýu. 

Al-Megrahi er 57 ára gamall fyrrum starfsmaður leyniþjónustu Líbýu. Líbýustjórn framseldi al-Megrahi á sínum tíma svo rétta mætti yfir honum vegna Lockerbiemálsins. Hann var fundinn sekur um fjöldamorð með því að hafa komið tösku fullri af sprengiefni fyrir í flugvélinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert