Talsmaður Hvíta hússins í Washington fordæmdi í dag móttöku Líbýumanna á fjöldamorðingjanum Abdelbaset Ali Mohmet al-Megrahi, sem var sakfelldur fyrir Lockerbie-sprengjuárásina. Talsmaðurinn segir að það hafi verið svívirðilegt og viðbjóðslegt hvernig al-Megrahi hafi verið fagnað sem þjóðhetju við heimkomuna.
Hann segir jafnframt að bandarísk yfirvöld fylgist gaumgæfilega með al-Megrahi, sem skosk yfirvöld slepptu úr fangelsi af mannúðarástæðum þar sem hann væri dauðvona.
„Myndirnar sem við sáum í Líbýu voru svívirðilegar og viðbjóðslegar,“ sagði Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins, og vísaði til fréttamynda af því þegar mörg hundruð manns veifaði fánum og fagnaði þegar al-Megrahi lenti í Trípólí.
„Við höfum rætt við stjórnvöld í Líbýu, og við munum halda áfram að fylgjast með hvað þau muni gera næstu daga hvað varðar þennan einstakling. Og við gerum okkur grein fyrir því að myndbandið sem við sáum í gær hafi verið mjög særandi í augum þeirra sem misstu ástvini sína árið 1988.“