Réðu viðskiptahagsmunir lausn Líbýumanns?

Abdelbaset al-Megrahi gengur inn í flugvél í Glasgow í gær.
Abdelbaset al-Megrahi gengur inn í flugvél í Glasgow í gær.

Sonur leiðtoga Líbýu sagði í sjónvarpsviðtali í kvöld, að sú ákvörðun skosku heimastjórnarinnar að láta lausan Líbýumann, sem dæmdur var fyrir svonefnd Lockerbie-mál, tengdist viðskiptasamningum Líbýu og Bretlands.

Breska utanríkisráðuneytið bar þetta til baka nánast samstundis og sagði, að allar ákvarðanir, varðandi Líbýumanninn Abdelbaset Ali Mohmet al-Megrahi, hefðu verið teknar af skosku stjórninni. 

Seif al-Islam, sonur Moammars Gaddafis, leiðtoga Líbýu, sagði í sjónvarpsviðtalinu að Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, hefði tekið mál Líbýumannsins Abdelbaset Ali Mohmet al-Megrahi upp í hvert skipti sem hann heimsótti Líbýu.

„Alltaf þegar rætt var um viðskiptasamninga, um olíu og gas til Bretlands, var al-Megrahi alltaf á samningaborðinu," sagði Islam. Viðtalið við hann var tekið um borð í flugvélinni, sem flutti al-Megrahi frá Skotlandi til Líbýu.

„Allir breskir hagsmunir tengdust því að  Abdelbaset al-Megrahi yrði látinn laus," sagði hann. 

Blair heimsótti Líbýu í maí 2007. Við það tækifæri skrifaði breska olíufélagið BP undir olíuleitarsamning sem metinn var á 900 milljónir dala. 

Talsmaður breska utanríkisráðuneytisins sagði, í kvöld að engir samningar hefðu verið gerðir milli ríkisstjórna Breta og Líbýu, sem tengdi mál al-Megrahis og viðskiptahagsmuni.

David Miliband, utanríkisráðherra Breta, vísaði fyrr í dag á bug vangaveltum um að breska stjórnin vildi að al-Megrahi yrði látinn laus svo hægt væri að styrkja viðskiptatengsl við Líbýu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka