Bandaríski herforinginn, sem dæmdur var fyrir aðild að My Lai morðunum svonefndu í Víetnamstríðinu, hefur í fyrsta skipti beðist afsökunar opinberlega. Talið er að bandarískir hermenn hafi myrt 500 karlmenn, konur og börn í My Lai árið 1968.
„Það líður ekki sá dagur, að ég iðrist ekki þess sem gerðist," hefur blaðið Columbus Ledger-Enquirer eftir William Calley, fyrrverandi liðsforingja. Hann ávarpaði samkomu í Columbus í Georgíu í vikunni.
„Ég iðrast vegna Víetnamanna sem voru drepnir, vegna fjölskyldna þeirra, bandarísku hermannanna sem blönduðust í málið og fjölskyldna þeirra. Mér þykir þetta afar leitt," hefur blaðið eftir Calley. Hann ítrekaði þó, að hann hefði verið að hlýðnast skipunum yfirmanna sinna.
Bandarísku hermennirnir voru í leiðangri til að leita að skæruliðum Víet Kong. Engir skæruliðar urðu á vegi hermannanna en þeir söfnuðu saman óbreyttum borgurum á svæðinu og skutu þá til bana.
Þegar upplýsingar um My Lai blóðbaðið urðu opinberar rúmu ári síðar breyttist almenningsálitið í Bandaríkjunum og um allan heim og mjög dró úr stuðningi Bandaríkjamanna við hernaðaraðgerðirnar í Víetnam.
Calley, sem nú er 66 ára, var dæmdur í ævilangt fangelsi árið 1971 fyrir að myrða 22 breytta borgara í My Lai. Richard Nixon, þáverandi Bandaríkjaforseti, mildaði dóminn í 3 ára stofufangelsi. Hann bjó í Columbus eftir þetta og vann í skartgripaverslun tengdaföður síns en flutti til Atlanta fyrir þremur árum. Calley hefur til þessa ekki veitt viðtöl um My Lai.