Aukin harka í deilu Ísraela við Svía

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Reuter

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun að ísraelsk yfirvöld krefðust og væntu þess að sænsk yfirvöld fordæmdu grein í sænska blaðinu Aftonbladet. Í greininni er sagt frá grunsemdum um að ísraelskir hermenn hafi stolið líffærum úr föllnum Palestínumönnum.

Í greininni er jafnframt sagt frá grunsemdum um að líffærin séu seld með samþykki ísraelskra yfirvalda. Þessu vísa yfirvöld í Ísrael á bug og segja að um gyðingahatur sé að ræða.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, hafa lýst því yfir að samkvæmt stjórnarskránni sé ríkisstjórninni óheimilt að fordæma blaðagreinar.

Í gær greindu sænskir fjölmiðlar frá því að ísraelska utanríkisráðuneytið hefði vísað á bug vangaveltum um að heimsókn utanríkisráðherra Svíþjóðar til Ísraels í næsta mánuði yrði aflýst. Nú kveður við annan tón, að því er sænskir fjölmiðlar greina frá.

Vitna þeir í ummæli fjármálaráðherra Ísraels, Yuval Steinitz, um að hver sá sem ekki vilji fordæma slík meiðyrði geti litið svo á að hann sé ekki velkominn til Ísraels.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert