Yfirmaður bandaríska herráðsins segir, að hryðjuverkasamtökin al-Qaeda hafi til að bera vilja og getu til að ráðast á Bandaríkin. Allt sé hins vegar gert til að reyna að hindra að gerð verði önnur árás á borð við þá, sem gerð var 11. september 2001.
Mike Mullen, yfirmaður herráðsins, sagði í sjónvarpsþættinum Meet the Press á sjónvarsstöðinni NBC, að stuðningur uppreisnarmanna talibana í Afganistan við al-Qaeda hafi styrkt samtökin. Þess vegna sé baráttan gegn öfgamönnum í Afganistan afar mikilvæg.
„Ég tel að (ástandið í Afganistan) sé alvarlegt og fari versnandi og ég hef sagt það áður, að uppreisn talibana sé að verða betur skipulögð og beittari en áður," sagði Mullen.
Stuðningur meðal bandarísks almennings við hernaðaraðgerðirnar í Afganistan er frekar dræmur. Könnun, sem gerð var fyrir Washington Post og ABC News fyrir skömmu sýndi að 51% landsmanna töldu að stríðið í Afganistan væri ekki þess virði að heyja það en 47% sögðust styðja aðgerðirnar þar.