Samsæriskenningar í tengslum við flutningaskipið Arctic Sea halda áfram að verða til. Rússneskt blað heldur því nú fram, að Ísraelsmenn hafi staðið á bak við ránið á skipinu vegna þess að það hafi verið að flytja flugskeyti til Írans. Rússnesk stjórnvöld segja þetta bull og vitleysu.
Arctic Sea fór frá Finnlandi 23. júlí, að að sögn með timburfarm áleiðis til Alsír. Þegar skipið var skammt frá sænsku eyjunni Gotlandi komust átta vopnaðir menn um borð og skipuðu áhöfninni að sigla gegnum Ermarsund og suður meðfram Evrópu og Afríku. Rússnesk herskip stöðvuðu för Arctic Sea loks 17. ágúst nálægt Grænhöfðaeyjum. Ræningjarnir voru handteknir og fluttir til Rússlands ásamt áhöfn skipsins.
Ritzau fréttastofan fjallar um málið í dag og segir að rússneska blaðið Novaja Gaseta haldi því fram, að Arctic Sea hafi í raun verið á leið til Írans með rússneskar stýriflaugar af gerðinni X-55. Þetta eru langdrægar flaugar, sem geta farið allt að 3000 kílómetra og geta borið sprengjuodda.
Blaðið segir, að Ísraelsmenn hafi fengið veður af þessu og skipulagt ránið á skipinu.
Ísraelsk blöð tóku málið upp en blaðið Jerusalem Post hefur eftir Dmitrí Rogozin, sendiherra Rússa hjá NATO, að þessar fréttir séu fáránlegar.