Fá nikótínmagn fimmtíu sígaretta

Börn sem vinna á tóbaksökrum í Afríkuríkinu Malaví fá svo mikið magn nikótíns inn í líkama sinn í gegn um húðina að það jafngildir því að þau reyki fimmtíu sígarettur á dag. Þetta er kemur fram á fréttavef Sky.

Mörg barnanna beri einkenni nikótíneitrunar og þjást af höfuðverkjum, magaverkjum, vöðvaslappleika og andateppu, samkvæmt í niðurstöðum rannsókna sem unnar voru á vegum samtakanna Plan.

„Vinnandi börn, allt niður í fimm ára gömul, bera sterk líkamleg merki sem rekja má til þess að þau taki inn 54 mg á dag af uppleystu nikótíni í gegn um húðina. Það samsvarar fimmtíu sígarettum,” segir í skýrslu samtakanna.

Þá segir að börn séu viðkvæmari fyrir nikótíneitrun en fullorðnir vegna smæðar líkama þeirra og þess að þau hafi ekki myndað ónæmi fyrir nikótíni og því sé hætta á því að þetta hafi varanleg áhrif á þroska þeirra.

Talið er að um 80.000 börn vinni á tóbaksökrum í landinu í stað þess að ganga í skóla og að mörg þeirra séu neydd til að vinna án hlífðarfatnaðar í allt að tólf tíma á dag.  

Um helmingur íbúa Malaví lifir undir fátæktarmörkum en um 70% af gjaldeyristekjum landsins kemur frá tóbaksrækt. Tóbak frá Malaví er notað í vörur evrópskra og bandarískra tóbaksframleiðanda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert