Hýðingu fyrirsætu frestað

Sharía dómstóll í Malasíu frestaði í morgun að framfylgja dómi yfir fyrirsætu sem átti að hýða sex vandarhöggum. Konan var sakfelld fyrir að drekka bjór á almannafæri.

Kartika Sari Dewi Shukarno, 32 ára fyrirsæta í Malasíu var í júlí dæmd til að þola sex vandarhögg en til hennar sást þar sem hún saup á bjórglasi. Shukarno krafðist þess að dómnum yrði framfylgt á almannafæri, enda væri best að sem flestir horfðu á hýðinguna ef tilgangurinn væri sá að fæla konur frá áfengisdrykkju.

Múslímum í Malasíu er bannað að drekka áfengi, en fólki af öðrum trúarbrögðum er það heimilt. Múslímar sem verða uppvísir að neyslu áfengis eiga yfir höfði sér sekt, hýðingu eða allt að þriggja ára fangelsisvist. Afar sjaldgæft er að ákært sé í málum sem þessu.

Fulltrúar Sharía dómstólsins sóttu fyrirsætuna á heimili hennar í morgun og hugðust flytja hana til fangelsis skammt utan við Kuala Lumpur þar sem framfylgja átti dómnum. Þegar skammt var liðið á ferðina, var bifreiðinni snúið við og Shukarno látin laus.

„Ég er orðlaus. Fulltrúar dómstólsins sögðu mér ekki hvort ég yrði sótt aftur og hýdd síðar. Ég vil fá það svart á hvítu hvernig málið stendur,“ sagði Shukarno við fréttamenn.

Sahfri Abdul Aziz, talsmaður dómstólsins sagði að dómurinn stæði. Refsingunni hefði aðeins verið frestað fram yfir Ramadan, föstumánuð múslíma.

Háttsettur embættismaður lét hins vegar hafa eftir sér að uppákoman bæri merki þess að yfirvöld vildu láta málið falla í gleymsku.

Amnesty International hafa fordæmt dóminn og hvatt yfirvöld í Malasíu til að afnema hýðingar.

Kartika Sari Dewi Shukarno, ásamt föður sínum og fulltrúa Sharía …
Kartika Sari Dewi Shukarno, ásamt föður sínum og fulltrúa Sharía dómstólsins skömmu áður en hún var flutt á brott í morgun. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert