Bandarísk stjórnvöld munu halda áfram uppteknum hætti og senda grunaða hryðjuverkamenn til þriðja landsins til fangelsisvistar og yfirheyrslna, rétt eins og gert var í tíð George W. Bush. Aukið eftirlit verður haft með meðferð fanganna til að tryggja að þeir verði ekki pyntaðir.
Dagblaðið New York Times segir á vefsíðu sinni að ólíkt því sem viðgengist hafi undir Bush verði ríkisstjórnin spila stærra hlutverk við að tryggja öryggi fanganna. Þá verði engir fangar sendir til landa sem þekkt séu fyrir að beita pyntingum við yfirheyrslur.
Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt þessa ákvörðun yfirvalda og segja að loforð um mannúðlega meðferð fanga í löndum sem hafi í gegnum tíðina stundað pyntingar, séu engin trygging gegn slæmri meðferð.
Obama-stjórnin vinnur einnig að því að setja upp yfirheyrsluteymi sem verði til húsa hjá Alríkislögreglunni. Þar verði höfð yfirumsjón með yfirheyrslum á grunuðum hryðjuverkamönnum og þess gætt að aðeins verði notuð tækni sem er samþykkt af yfirvöldum.