Meira en helmingur þeirra sem látist hafa af völdum svínaflensu (H1N1) eru ungt fólk á fullorðinsaldri samkvæmt niðurstöðum einnar fyrstu rannsóknarinnar sem tekur saman alþjóðleg gögn vegna flensunnar.
Rannsóknin var gerð á andláti 578 manns frá 28 löndum fram í miðjan júlí og leiddi hún einnig í ljós að sykursýki eða offita ýtir verulega undir áhættuna á dauðsfalli af völdum flensunnar.
Hvorki börn né eldri borgarar hafa reynst eins viðkvæmir gagnvart vírusnum og upphaflegar skýrslur hafa gefið í skyn. Skýrslan var gefin út af Eurosurveillance. „Flest dauðsfallanna (51%) urðu meðal fólks í aldurshópnum 20-49 ára, en munurinn er þó talsverður eftir löndum eða heimsálfum,“ segir í skýrslunni. Aðeins 12% þeirra sem létust voru komnir yfir sextugt.
Öll ofangreind atriði - þ.e. há dánartíðni meðal ungra fullorðinna og of feits fólks, en ekki meðal barna eða eldri borgara - stangast á við einkenni venjulegrar árstíðabundinnar flensu. Yfir 90% þeirra sem látast úr árstíðabundinni flensu eru 65 ára og eldri.
Sameiginlegur þáttur hjá árstíðabundnu flensunni og svínaflensunni er há tíðni meðal barnshafandi kvenna. Vísindamennirnir lögðu þó áherslu á að enn sé of snemmt að meta endanleg áhrif flensunnar af mikilli nákvæmni.
Svínaflensan kom fyrst upp í Mexíkó í apríl síðastliðnum og hefur síðan ferðast um heiminn og sýkt hundruð þúsunda en 1.800 manns hafa látist af völdum flensunnar.