Tvær kærur um kynþáttaofsóknir hafa verið bornar upp við sænsk yfirvöld vegna blaðafregna Aftonbladet um að ísraelskir hermenn hafi stolið og selt líkamshluta látinna Palestíníumanna, að því er lögmaður hjá hinu opinbera greindi frá í dag.
Håkan Rustand sem er lögfræðilegur ráðgjafi hjá Göran Lambertz, sjálfstæðs ríkissaksóknara, staðfesti að tvær kvartanir hefðu borist með ósk um að rannsakað yrði hvort staðhæfingar í frétt götublaðsins Aftonbladet fælu í sér kynþáttaofsóknir.
Lambertz sem ekki tjáir sig , er skipaður af ríkisstjórninni, og er eins konar sjálfstæður varðhundur dómskerfisins en hann er eini saksóknarinn sem getur látið taka til sín mál er varðar prentfrelsi.
Ráðgjafi hans leggur þó áherslu á að saksóknarinn geti ekki skorið úr um hvort umrædd blaðagrein hafi verið við hæfi heldur einungis hvort hún sé brot á ákvæðum laganna um tjáningarfrelsi.
Sjálfur segist Rustand ekki vera þeirra skoðunar en tekur fram að saksóknarinn geti haft aðra skoðun á því.
Samkvæmt prentfrelsislöggjöf Svíþjóðar er það lögbrot að birta grein sem "ógnar eða tjáir fyrirlitningu á íbúahópum eða öðrum slíkum hópum með tilvísun til kynþáttar, litar, þjóðernis eða uppruna.“
Aftonbladet hélt því fram í fréttinni að ísraelskir hermenn hefðu stundað ólögmæta verslun með líffæri. Fréttin hefur valdið mikilli ólgu í Ísrael og háttsettir ráðherrar í ríkisstjórn landsins hafa krafist þess að sænsk stjórnvöld fordæmi þessi skrif blaðsins.
Sænski forsætisráðherrann Fredrik Reinfeldt hefur fram til þessa hafnað öllu slíku með skírskotun til þess að prentfrelsi sé órjúfanlegur hluti lýðræðisins. „Það er nauðsynlegt að ég láti það koma fram að það er ekki hægt að snúa sér til sænsku ríkisstjórnarinnar og biðja hana um að brjóta gegn sænsku stjórnarskránni.