Fyrstu tölur frá afgönsku yfirkjörstjórninni sýna að Hamid Karzai, núverandi forseti landsins, hefur nokkuð forskot eftir nýafstaðnar forsetakosningar. Þegar 10% atkvæða höfðu verið talin hafði Karzai fengið 212.000 atkvæði á móti 202.000 helsta keppinautar síns Abdullah Abdullah.
Margar ásakanir liggja fyrir um kosningasvik og rannsakar kjörstjórnin nú um 800 kvartanir sem borist hafa. Ekki er búist við endanlegum niðurstöðum fyrr en eftir nokkrar vikur. Frambjóðandi þarf að fá 50% atkvæða, annars verður ráðist í aðra umferð.
Að sögn yfirkjörstjórnarinnar hafa 524.444 gildir seðlar verið taldir og hefur Karzai fengið 40,6% atkvæða og Abdullah 38,7%.
Aðeins 2% atkvæða frá Kandaharhéraði í suðurhluta landsins hafa verið talin og ekkert í Helmand. Líklegt þykir að Karzai fái mikinn hluta atkvæða í báðum héruðum.