Mikill sykurskortur í Suður-Asíu

Sykurreyrinn skorinn á Indlandi.
Sykurreyrinn skorinn á Indlandi. Reuters

Mikill skortur er á sykurbirgðum á Indlandi og í Pakistan. Verð hafa hækkað upp úr öllu valdi og er almenningur farinn að ókyrrast mjög. Indversk stjórnvöld hafa gripið til þess ráðs að takmarka það mjög hvað fyrirtæki geti safnað miklum birgðum af sykri.

Stjórnvöld í Pakistan urðu nánast að tvöfalda verð á sykri í landinu vegna skortsins. Það olli mikilli reiði meðal landsmanna fyrir föstumánuð múslíma, sem er nýhafinn.

Verð á hrásykri í heiminum hefur ekki verið hærra frá árinu 1981. Víða hafa menn miklar áhyggjur af sykurskortinum.

Hvergi í heiminum er meiri sykurneysla en á Indlandi. Þá framleiða Indverjar næst mest af sykri í heiminum. Lítið hefur rignt yfir monsúntímann og hefur það dregið úr framleiðslunni. Því hafa Indverjar orðið að reiða sig á innflutning.

Fram kemur í einu dagblaði í landinu að birgðirnar í landinu hafi dregist saman um 4,5 tonn. Það dugi aðeins í tvo mánuði í landinu. 

Stjórnvöld á Indlandi hafa skipað fyrirtækjum sem kaupa sykur í miklu magni, s.s. kexframleiðendum, að þeir megi aðeins eiga 15 daga birgðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert