Semenya fagnað í S-Afríku

Sigurvegarinn í 800 m hlaupi á HM í Berlín, Caster Semenya, sneri heim til S-Afríku í dag. Henni var fagnað sem þjóðhetju. En sjálf var hún sögð svo slegin yfir umræðunni um það hvort  rannsaka ætti hvort hún væri kona eða karl að hún tjáði sig ekki við fjölmiðla, að sögn Guardian.

"Hún ætlar ekki að tala við ykkur, hún er í sjokki," sagði Leonard Chuene, forseti Íþróttasambands Suður-Afríku á Oliver Tambo-flugvellinum í Jóhannesarborg. "Ímyndið ykkur þetta... fjandsamlegir fjölmiðlar hafa ráðist á hana. Ég er sjálfur í sjokki." Faðir Semenya og amma hennar voru einnig á fréttamannafundinum.

Embættismenn Íþróttasambandsins vísuðu því á bug að rannsókn færi fram. Semenya er með afar djúpa rödd og karlmannlegan vöxt og árangur hennar hefur tekið stórstígum framförum á skömmum tíma. Að sögn BBC hefur mælst þrisvar sinnum hærra hlutfall karlhormónsins testósterons i blóði Semenya en eðlilegt má teljast.

Yfirþjálfari íþróttaliðs Suður-Afríku er Dr Ekkart Arbeit, sem fyrr á árum var viðriðinn hneyksli í tengslum við lyfjanotkun íþróttamanna frá gamla Austur-Þýskalandi.  En Suður-Afríkumenn neita því að hann hafi nokkurn tíma dælt ólöglegum lyfjum í Semenya sem er 18 ára.

Semenya sagði síðar nokkur orð í gestahúsi forseta landsins en áður hafði forsetinn, Jacob Zuma, flutt ræðu í tilefni að heimkomu liðsins. Sagðist Semenya hafa farið að ráðum þjálfarans og þannig sigrað keppinauta sína. ,,Það var frábært!"

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert