Þrír Palestínumenn létu lífið og sjö slösuðust er Ísraelsher gerði loftárás á göng sem herinn segir að hafi verið notuð til vopnasmygls frá Egyptalandi til Gasasvæðisins í morgun.
Fram kemur í yfirlýsingu Ísraelshers vegna málsins að árásin hafi verðið svar við flugskeytaárás Palestínumanna á Gasasvæðinu, yfir landamærin til Ísraels í gær, en einn Ísraeli slasaðist lítillega í árásinni.
Ríkisstjórn Ísraels hefur nú hótað því að svara hverri einustu flugskeytaárás frá Gasasvæðinu á Ísrael en 220 flugskeytum hefur verið skotið frá Gasasvæðinu yfir landamærin til Ísraels frá því þriggja vikna hernaðaraðgerðum Ísraela á Gasasvæðinu lauk þann 18. janúar.