Umdeilt afmæli í boði kanslarans

Josef Ackermann
Josef Ackermann Reuters

Angela Merkel, Þýskalandskanslari, liggur nú undir ámæli fyrir að hafa haldið afmælisboð fyrir stjórnarformann Deutsche Bank í húsnæði kanslaraembættisins í apríl síðastliðnum. Stjórnmálamenn vilja nú fá að vita hvort skattgreiðendur hafi þurft að borga brúsann.

Josef Ackermann átti „yndisleg kvöld“ ásamt þekktum vinum úr viðskiptalífinu í húsakynnum kanslaraembættisins þann 22.apríl síðastliðinn. Veislan hófst klukkan sjö og var Angela Merkel meðal viðstaddra, boðið var upp á kvöldmat. Ástæða móttökunnar var sú að Merkel hafði ekki getað þekkst boð í afmæli Ackermanns nokkrum vikum fyrr og vildi bæta fyrir það. Þetta kemur fram á vefsíður Spiegel.

Ackermann sagði glaðbeittur frá þessu „yndislega kvöldi“í sjónvarpsþætti á ZDF fyrir nokkrum vikum síðan og sagði að Merkel hefði stungið upp á boðinu og að tæplega 30 gestum hefði verið boðið. Það er því löngu vitað að veislan var haldin en nú fyrst virðast stjórnmálamenn vaknaðir og vilja kryfja málið, skömmu fyrir kosningar.

„Þetta er óforskammað,“ sagði Ralf Stegner úr röðum SPD, samsstarfsflokki Angelu Merkel í ríkisstjórn. „Angela Merkel dyllar sér með þeim sem vel gengur, þeim sem þéna milljónir.“ Kvöldverðurinn sýni að Merkel breyti ekki út af vananum þó illa ári í efnahagslífinu.

Þeir sem hafa komið Merkel til varnar segja að slík boð séu alvanaleg í húsakynnum kanslarans og að í þessu boði hafi aðeins viðskiptafólki verið boðið og því hafi ekki verið um einkasamkvæmi að ræða. Fárið sé einungis tilkomið vegna óheppilegra ummæla Ackermanns í sjónvarpsþætti ZDF.

Angela Merkel
Angela Merkel Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert