Yfirsaksóknari Serbíu í málum sem tengjast stríðsglæpum, Vladimir Vukcevic, á von á því að það takist að hafa hendur í hári Ratko Mladic í ár. Kemur fram í viðtali við Vukcevic í dag að ákveðinn árangur hafi náðst í leitinni að Ratko Mladic.
Mladic var yfirhershöfðingja Bosníu-Serba 1992-1995 og hefur sl. 14 ár verið á flótta undan réttvísinni en hann var ákærður fyrir að skipuleggja þjóðarmorð í Srebrenica árið 1995.
Vukcevic segir í viðtali sem birtist í dagblaðinu Vecernje Novosti í dag að hann eigi von á því að Mladic verði framseldur til alþjóðlega stríðsglæpadómsstólsins í Haag í Hollandi fyrir árslok.
„Við vinnum stöðugt að því að ná lokamarkmiðinu, að finna, handtaka og framselja Ratko Mladic og Goran Hadzic til dómsstólsins,"segir Vukcevic í viðtalinu.
Hadzic, fyrrverandi leiðtogi Króatíu-Serba, er meðal annars ákærður fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu, s.s. ofsóknir, útrýmingu, pyntingar, brottflutninga og tilefnislausar eyðileggingar. Glæpirnir voru framdir á árunum 1991-95 af serbneskum hermönnum í Króatíu.
Serbía vonast til þess að fá inngöngu inn í Evrópusambandið árið 2014 en ekki er talið að það gangi eftir nema Mladic náist.